Börn og unglingar
Æfingatafla
Barna og unglingatímar
TBR rekur stórt og kraftmikið barna og unglingastarf. Félagið reynir eftir fremsta megni að stuðla að því að öll börn og unglingar eigi kost á því að spila badminton. Starfræktir eru tímar fyrir alla aldurshópa hvort heldur sem eru byrjendur eða lengra komna. Félagið heldur úti keppnishópi í öllum aldursflokkum. Keppnishópurinn samanstendur af bestu börnum og unglingum félagsins í badminton. Hægt er að lesa ferkar um einstaka hópa með því að smella á tenglana hér að ofan.
Skólabadminton
TBR rekur stórt og kraftmikið barna og unglingastarf. Félagið reynir eftir fremsta megni að stuðla að því að öll börn og unglingar eigi kost á því að spila badminton. Starfræktir eru tímar fyrir alla aldurshópa hvort heldur sem eru byrjendur eða lengra komna. Félagið heldur úti keppnishópi í öllum aldursflokkum. Keppnishópurinn samanstendur af bestu börnum og unglingum félagsins í badminton. Hægt er að lesa ferkar um einstaka hópa með því að smella á tenglana hér að ofan.
6-8 ára
TBR hefur sett af stað tíma fyrir börn á aldrinum 6-8 ára. Tímarnir hafa verið ágætlega sóttir og það hefur sýnt sig að þau börn sem hefja sinn badmintonferil í þessum tímum haldi áfram í badminton fram eftir aldri. Tímarnir eru hugsaðir sem undirbúningur fyrir komandi ár og eru æfingarnar sem börnin eru látin gera miðaðar út frá því. Hafa verður í huga aldur og þroska barnanna þegar valdar eru æfingar hverju sinni og miða að þvi að þeim finnist skemmtilegt en að sama skapi áhugavert og spennandi að spila. Öll börn hafa gott af íþróttum og félagslegu umhverfi utan skóla og reynir TBR að mæta þeirri eftirspurn strax. Mikill metnaður er lagður í þessa tíma að hálfu TBR og er það stefna TBR, að í þessum tímum fái börnin eins mikið út úr tímunum og mögulegt er hverju sinni.
Helstu áherslur í þessum tímum eru að kenna börnunum rétt grip hvort heldur sem er forhandar eða bakhandargrip. Reynt er eftir fremsta megni að gera börnunum grein fyrir mikilvægi þess að gera hlutina rétt þó svo það reynist þeim erfiðara en það sem þau sjálf myndu fremur kjósa. Einnig er mikið farið í sveifluferilinn og háhöggið. Börnin látin standa með spaða en engar kúlur og slá út í loftið undir eftirliti þjálfara sem svo leiðréttir.
Markmiðið með því að fá börnin inn í íþróttina strax á þessum árum er að móta og skapa tæknina sem allra fyrst því það eru einmitt þau sem eiga auðveldast með að læra. Með mikilli staðfestu og miklu aðhaldi frá þjálfara, dugnaði frá börnunum sjálfum og eftirfylgni frá heimilunum getur það skipt sköpum að börnin byrji svona ung að spila. Það leiðir af sér að þau verða fyrr góð í íþróttinni og eykur líkurnar á að þau verði að keppnisfólki sem muni stefna í fremstu röð og verða að besta badmintonfólki landsins.
9-12 ára
Tímar fyrir börn á aldrinum 9-12 ára eru vinsælustu unglingatímarnir í TBR. Hér eru á ferðinni börn sem oft á tíðum eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni sem og þau sem eru örlítið lengra komin og jafnvel farin að keppa í stöku mótum. Í þessum tímum eru markmiðin jafn mismunandi og þau eru mörg. Sum hver ætla sér langt í íþróttinni á meðan aðrir vilja koma og spila og leika sér með sínum vinum og félögum. Reynt er eftir fremsta megni að gera æfingarnar krefjandi fyrir alla.
Í þessum tímum er mikið spilað og reglurnar kenndar. Farið er í grunninn á fleiri tækniatriðum svo sem; netspil, bakhönd, dropp og smass svo dæmi séu tekin. Einnig er farið lauslega yfir helstu atriði fótaburðar og kenndar réttar hreyfingar út í horn og aftur til baka og hvernig skuli slá og hreyfa sig á sama tíma.
Markmið tímanna er að halda úti unglingastarfi fyrir alla þá sem eru á þessum aldri og hafa áhuga á að spila badminton. Allir geta skráð sig og fengið kennslu. TBR reynir stöðugt að stuðla að bættum árangri leikmanna sinna og leita leiða til að hver og einn bæti það sem hann/hún þarf að bæta hverju sinni. Einnig eru þessir tímar góð leið fyrir þjálfara til að koma auga á þá sem virkilega vilja leggja sig fram og verða keppnisfólk. Öllum þeim sem spila í þessum tímum er heimilt að skrá sig í mót sem haldin eru yfir veturinn og hvetur TBR eindregið til þátttöku í mótum fyrir þennan hóp
13-16 ára
TBR er með opna tíma fyrir 13-16 ára unglinga. Tímarnir eru opnir öllum á þessum aldri, hvort sem er byrjendum eða lengra komnum. Flestir sem mæta í þessa tíma æfa ekki með keppni í huga og sýnir það að hægt er að byrja að æfa badminton hvenær sem er. Í þessum tímum er aðallega spilað enda flestir komnir til að spila badminton með sínum vinum og félögum. Þjálfararnir eru þó alltaf á staðnum og sjá fyrir skipulagi á æfingunum og að enginn sitji aðgerðalaus og með engan mótspilara.
Aðalatriðið í þessum tímum er að unglingarnir njóti sín og hafi gaman af því að koma í badminton. Þessir tímar eru hugsaðir fyrir alla sem langar að spila badminton og eru því miðaðir út frá því að mikill munur geti verið á getu þeirra sem spila. Því er mikilvægt að þjálfararnir þekki til hópsins og geti því stýrt og stjórnað að allir fái andstæðing við sitt hæfi.
Markmið tímanna er að bjóða upp á líkamsrækt og hreyfingu fyrir unglinga, hvort heldur þá sem eru vanir íþróttum eða ekki. Stefnt er að því að unglingarnir þekki reglurnar og helstu grunnþætti tækninnar, að þau geti spilað og keppt sín á milli og lært að spila inn á veikleika andstæðingsins.
Keppnishópur unglinga
Keppnishópur unglinga er sá hópur innan félagsins sem æfir með keppni í huga. Í þessum hóp eru bestu börn og unglingar landsins í badminton. Krakkarnir æfa 2 tíma í senn allt að 4 sinnum í viku, auk þess sem þau eldri æfa einnig í keppnishópi fullorðinna. TBR gerir þá kröfu á þessa krakka að þau keppi í sem flestum unglingamótum vetrarins og sinni íþróttinni af fullum krafti.
Kafað er djúpt í alla þætti höggtækninnar og krökkunum kennt að leysa sig úr öllum aðstæðum sem upp geta komið á vellinum, hvort heldur sem er vörn eða sókn. Þeim er kennt að byggja upp spil og nýta sína styrkleika. Farið er í saumana á fótahreyfingum, svokölluðum fótaburði, og krökkunum gert ljóst mikilvægi hans, en góður fótaburður er ekki síður mikilvægari en tæknin. Leikskilningur og staðsetning er eitthvað sem þjálfarar kappkosta að útskýra og kenna.
TBR stefnir að því að hafa besta badmintonfólk landsins innan sinna raða og er það markmið félagsins með þessum tímum að stuðla að uppbyggingu íþróttarinnar á afrekssviði. Mest allt afreksfólk badmintoníþróttarinnar kemur úr TBR og hafa þau öll á einhverjum tímapunkti á þeirra ferli verið hluti af keppnishóp unglinga í TBR. Markmið tímanna er að skapa keppnisfólk í badminton sem nær í fremstu röð.